Fótbolti

Mourinho: Aragones ætti að verða næsti þjálfari Portúgals

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Aragones fagnar Evrópumeistaratitlinum með Spánverjum fyrir tveimur árum.
Luis Aragones fagnar Evrópumeistaratitlinum með Spánverjum fyrir tveimur árum. Mynd/AFP
Jose Mourinho, þjálfari Real Madrid, tjáði sig um landsliðsþjálfaramál Portúgals í gær en landar hans leita nú að nýjum þjálfara fyrir A-landsliðið eftir að Carlos Queiroz var rekinn í vikunni.

„Ég vil sjá Luis Aragones taka við landsliðinu. Hann er mjög reyndur," sagði Jose Mourinho en bætti því þó við að þjálfarar landsliða eiga að vera frá sama landi og þeir þjálfa. Það gæti orðið raunin hjá Portúgal því Paulo Bento, fyrrum þjálfari Sporting Lissabon, þykir líklegastur til að hreppa starfið.

Luis Aragones er 72 ára gamall en hann þjálfaði spænska landsliðið á árinu 2004 til 2008 og lagði grunninn að því liði sem vann Evrópumeistaratitilinn undir hans stjórn og bætti síðan heimsmeistaratitlinum við í sumar.

„Ég vil ekki sjá Portúgal gera jafntefli eða tapa leikjum. Ég vona að þetta breytist því þeir eru með nógu góða leikmenn til þess að snúa þessu við," sagði Mourinho.

Portúgal hefur aðeins eitt stig út úr fyrstu tveimur leikjum sínum í undankeppni EM eftir 4-4 jafntefli við Kýpur á heimavelli og 0-1 tap fyrir Norðmönnum í Osló.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×