Innlent

Tugmilljóna gjöld á flugið

ÁRNI GUNNARSSON
ÁRNI GUNNARSSON
Flugrekendur eru ósáttir við að ekki hafi verið sótt um undanþágu fyrir innanlandsflug vegna kaupa á kolefniskvóta. Frá 1. janúar 2012 þurfa flugfélög að tryggja sér losunarkvóta fyrir kolefnisútblástur.

Flugrekendur vildu undanþágu enda giltu sérstakar aðstæður í flugi innanlands. Gjöldin væru fyrst og fremst hugsuð til að efla umhverfisvænar samgöngur líkt og lestir, sem ekki sé til að dreifa hér á landi. Mun minni mengun sé af flugi á hvern farþega heldur en bílum.

„Það hefur ekki reynt á sambærileg mál og innanlandsflugið í samningum við Evrópusambandið. Við höfum ekki aðra kosti í boði, eins og lestir eða annað sem menn hafa horft til. Okkur flugrekendum hefði þótt eðlilegt að láta reyna á þetta,“ segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands. Hann segir ljóst að um tugmilljóna króna gjöld verði að ræða fyrir fyrirtækið.

Hörður Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ernis, segir óskiljanlegt hvernig stjórnvöld hafi haldið á málum fyrir Íslands hönd. Um nýja skattlagningu sé að ræða sem flugfélögin standi ekki undir. Því verði að velta þeim út í verðlagið.

Ingvar Sverrisson, aðstoðarmaður samgönguráðherra, segir mikla vinna hafa verið lagða í að undirbúa aðlögun að innleiðingu gerðarinnar sem miðaði að því að undanskilja innanlandsflug frá henni. Aldrei kom til álita að undanskilja millilandaflug frá áhrifum tilskipunarinnar þar sem kvóti í flugi innan EES hefði komið til óháð innleiðingu gerðarinnar. Fyrir lá að litlar líkur hefðu verið á því að ESB hefði fallist á undanþágu fyrir innanlandsflugið þar sem sambandið hafði hafnað slíkum beiðnum frá öðrum aðildarríkjum og Noregur hætt við sömu beiðni. Ísland hefði því staðið eitt í samningum.

Ingvar segir að aðlögunin hefði jafnframt leitt til seinkunar á innleiðingu þannig að það hefði tafið fyrir því að sá kvóti sem félli til vegna okkar flugfélaga í millilandaflugi hefði verið ráðstafað hér. „Þá ákvað ESB á síðustu metrunum að falla frá 100 prósent kvótasetningu og lækka niður í 15 prósent og við féllum frá aðlögun. Við erum þó með almenna fyrirvara um að breyta afstöðu okkar verði kvótahlutfallið endurskoðað.“- kóp



Fleiri fréttir

Sjá meira


×