Íslenski boltinn

Gunnleifur: Man. City-treyjan skilaði sínu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Landsliðsmarkvörðurinn Gunnleifur Gunnleifsson átti stórleik fyrir FH í kvöld gegn KR og hann var ein helsta ástæða þess að FH fékk öll þrjú stigin í kvöld.

"Við reddum þessu alltaf saman. Stundum redda ég aðeins meira og stundum þeir. Þetta snýst um liðsheildina," sagði Gunnleifur hógvær.

Hann mætti til leiks í kvöld í treyju í Man. City-litnum en Gunnleifur er líklega harðasti stuðningsmaður þess liðs á Íslandi.

"Maður spyr sig hvort treyjan hafi gert gæfumuninn. Boltinn fór allavega ekki inn," sagði Gunnleifur léttur og hló við.

"Ég var ánægður með mína frammistöðu að mestu leyti. Það var mjög sterkt að vinna leikinn þó svo við hefðum ekki spilað okkar þekkta FH-bolta. Við erum vanir að verjast ofar á vellinum en við féllum of langt til baka eftir að við skorum. Það þurfti mikla vinnu til þess að vinna þennan leik," sagði Gunnleifur sem blæs á þær raddir sem segja að það sé ekki nægilegt hungur í FH-liðinu.

"Það sást í dag að það er nægilegt hungur í þessu liði. Þegar FH spilar sinn besta leik er ekkert lið á Íslandi sem stenst okkur snúning. Okkur langar í annan bikar og við erum ekkert hættir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×