Enski boltinn

Tottenham vann langþráðan sigur á Arsenal - búnir að bíða í 11 ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tottenham-menn fagna hér draumamarki Danny Rose.
Tottenham-menn fagna hér draumamarki Danny Rose. Mynd/AFP
Tottanham vann í kvöld sinn fyrsta leik á erkifjendunum í Arsenal síðan í nóvember 1999 þegar Tottenham vann 2-1 sigur í leik liðanna á White Hart Lane í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Arsenal hafði fyrir leikinn leikið 20 leiki í röð án þess að tapa fyrir nágrönnum sínum í norður London.

Tottenham hefur þar með ekki tapað í síðustu átta leikjum sínum á White Hart Lane en Arsenal þurfti að sætta sig við sitt fyrsta deildartap síðan 7. febrúar þegar liðið tapaði fyrir Chelsea.

Arsenal hefði getað minnkað forskot Chelsea á toppnum í þrjú stig en meistaravon lærisveina Arsene Wenger varð nánast að engu með þessu tapi. Tottenham er nú aðeins einu stigi á eftir Manchester City í baráttunni um fjórða sætið inn í Meistaradeildina.

Hinn 19 ára Danny Rose byrjaði frábærlega í sínum fyrsta leik í byrjunarliði Tottenham þegar skoraði fyrsta mark leiksins á 10. mínútu. Manuel Almunia, markvörður Arsenal, sló þá boltann út fyrir teiginn en þar beið strákurinn og tók boltann viðstöðulaust á lofti og hann lá í netinu.

Arsenal varð fyrir öðru áfalli níu mínútum síðar þegar Thomas Vermaelen meiddist upp úr engu og varð að fara útaf. Mikael Silvestre kom inn í staðinn og lék við hlið Sol Campbell í miðverðinum.

Tottenham fékk draumabyrjun á seinni hálfleik líka þegar Gareth Bale slapp í gegn eftir stungusendingu frá Jermain Defoe og skoraði eftir aðeins tveggja mínútna leik í seinni hálfleiknum.

Eiður Smári Guðjohnsen kom inn á sem varamaður fyrir Jermain Defoe á 68. mínútu eða á sama tíma og Robin van Persie kom inn á hjá Arsenal í sínum fyrsta leik eftir meiðslin.

Eiður fékk dauðafæri skömmu eftir að hann kom inn á völlinn en hitti ekki boltann fyrir framan miðju marki.

Arsenal pressaði mikið í lokin með Robin van Persie í fararbroddi en Heurelho Gomes í marki Tottenham varði hvað eftir annað á stórglæsilegan hátt þar á meðal þrjú þrumuskot frá Hollendingnum.

Dananum Nicklas Bendtner tókst loksins að minnka muninn á 85. mínútu eftir sendingu frá Theo Walcott og undirbúning frá Robin van Persie.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×