Innlent

Undrast færri ferðir fyrir sama verð

Framkvæmdastjóri Spalar segir að tekið sé fram í áskriftarsamningi að gjaldið getur hækkað og lækkað eftir aðstæðum.
fréttablaðið/pjetur
Framkvæmdastjóri Spalar segir að tekið sé fram í áskriftarsamningi að gjaldið getur hækkað og lækkað eftir aðstæðum. fréttablaðið/pjetur

Veggjald í Hvalfjarðar­göngunum hækkar um tæplega 13 prósent að jafnaði frá og með 1. febrúar vegna verðlagsþróunar og afkomu Spalar undanfarin tvö ár.

Gjald fyrir staka ferð í fyrsta gjaldflokki fer úr 800 í 900 krónur og hver ferð áskrifenda að eitt hundrað ferðum fer úr 230 í 259 krónur. Inneign áskrifenda minnkar sjálfkrafa við gjaldskrárbreytinguna, það er ónotuðum ferðum fækkar sem svarar til hækkunar veggjaldsins.

Aðspurður efast Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, um að þessi ákvörðun varðandi áskriftina standist. „Það þarf alltaf samþykki neytenda fyrir breytingum að skilmálum eða kjörum nema í einstaka undantekningartilvikum,“ segir Gísli. „Þá er hægt að tilkynna og gefa frest vilji menn draga sig út úr viðskiptunum. Til dæmis ef símafyrirtæki hækka verðskrána hefur maður þrjátíu daga til að skipta um fyrirtæki eða áskrift. Annars er maður bundinn,“ segir hann. „Ef einokunarfyrirtæki ætla að hækka verð þá gildir ekki þetta sjónarmið sem almennt gildir um frjálsa verðlagningu. Þess vegna þyrfti óháður aðili, til dæmis ráðherra, að meta hvort það séu forsendur til hækkunar.“

Gylfi Þórðarson, framkvæmdastjóri Spalar, segir að tekið sé fram í skilmálum í 2. grein áskriftasamnings að Spölur heimili viðkomandi að hafa afnot af göngunum á því gjaldi sem er í gildi hverju sinni. „Þetta hefur einu sinni hækkað á níu árum en síðan hefur gjaldið lækkað fimm sinnum. Einu sinni lækkaði það um tæp 40 prósent fyrir þessa algengustu bíla og þá fengu menn 40 til 50 ferðum meira en menn voru búnir að kaupa. Það kvartaði enginn þá,“ segir Gylfi. Hann bætir við að fólk geti sagt upp áskriftarsamningi sínum með stuttum fyrirvara ef það vill. „Það getur skilað inn lyklinum og fengið endurgreitt, það er ekkert sem bannar það.“ - fb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×