Erlent

Dönsk sérsveit berst við gengin

MYND/AP

Danska lögreglan hefur stofnað sérsveit sem berst gegn skipulagðri glæpastarfsemi mótorhjólagengja. Nýja sveitin, sem gengur undir nafninu "Task Force Öst" hefur síðustu daga komið upp um stórfelld fíkniefnaviðskipti hjá meðlimum mótorhjólagengja og sú breyting hefur orðið á að nú er lögreglan að ná að tengja glæpina við háttsetta meðlimi samtakanna en hingað til hefur það reynst þrautin þyngri í Danmörku.

Þann ellefta febrúar var varaforseti eins klúbbs handtekinn með tvö kíló af amfetamíni og daginn eftir voru fjórir meðlimir teknir með 44 kíló af hassi. Síðasta mánudag uppgötvaði sérsveitin síðan 15 kíló af amfetamíni og átta af hassi.

Magnus Andersen lögreglumaður segir í samtali við danska ríkisútvarpið að árangur síðustu daga sé afrakstur mikillar vinnu en sérsveitin hóf störf í desember í fyrrra. Hana skipa áttatíu lögreglumenn sem gera ekkert annað en að rannsaka glæpagengi og koma upp um glæpi þeirra. Hingað til hefur mestur árangur náðst gegn meðlimum Bandidos mótorhjólaklúbbsins en þeir hafa staðið utan við stríð sem Hells Angels klúbburinn hefur háð gegn meðlimum úr innflytjendaklíkum.

Það þykir benda til þess að á meðan hafi Bandidos náð að hasla sér meiri völl á eiturlyfjasölumarkaðnum á meðan aðrir voru uppteknir við að berast á banaspjótin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×