Lífið

Leitað að röddum í kór Hörpunnar

Hörpukór Steinunn Birna og Þorgerður Ingólfsdóttir ætla að fara út um allt land og finna raddir í kór sem á að syngja í tengslum við opnun Hörpunnar.
Fréttablaðið/Anton
Hörpukór Steinunn Birna og Þorgerður Ingólfsdóttir ætla að fara út um allt land og finna raddir í kór sem á að syngja í tengslum við opnun Hörpunnar. Fréttablaðið/Anton
„Við erum að fara í þessa leit til að undirstrika að Harpan er tónlistarhús allra Íslendinga," segir Steinunn Birna Ragnarsdóttir, tónlistarstjóri Hörpunnar.

Á morgun mun hún og Þorgerður Ingólfsdóttir, stjórnandi Hamrahlíðakórsins, hefja ansi merkilegt ferðalag um allt Ísland. Tilgangurinn er að finna raddir, á aldrinum 16 til 23 ára, til að vera með í kór sem hefur verið gefið vinnuheitið Raddir Íslands en hann á að taka þátt í opnunarhátíð Hörpunnar á næsta ári. Þær Þorgerður og Steinunn Birna munu heimsækja alla landshluta og byrja leitina reyndar í öðru menningarhúsi, Hofi á Akureyri.

Steinunn segir að raddirnar sem þær hyggist finna nemi nokkrum tugum, það velti auðvitað allt á efni og aðstæðum. Þær stöllur verða eflaust ekki í vandræðum með að manna þær stöður enda þátttaka í kórastarfi með eindæmum góð á Íslandi. „Valið verður auðvitað í höndunum á mjög reyndum kórstjórnanda, svo vægt sé til orða tekið, því Þorgerður er auðvitað frumkvöðull í kórastarfi ungs fólks og kórinn hennar, Hamrahlíðakórinn, verður grunnurinn sem byggt verður á," útskýrir Steinunn Birna. Allar æfingar og þjálfun verða í höndum Þorgerðar.- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.