Innlent

Hvorki Sólon né Árni kannast við söguskýringu Hannesar

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Árni Tómasson var annar tveggja bankastjóra Búnaðarbankans. Hvorki hann né Sólon Sigurðsson kannast við að hafa haft samband við stjórnmálamenn vegna lánveitinga til Baugs.
Árni Tómasson var annar tveggja bankastjóra Búnaðarbankans. Hvorki hann né Sólon Sigurðsson kannast við að hafa haft samband við stjórnmálamenn vegna lánveitinga til Baugs.

Sólon Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóri Búnaðarbanka Íslands, segist ekki kannast við það að hafa haft að eigin frumkvæði samband við stjórnmálamenn til að kanna hvort það væri heppilegt að lána Baugi Group fjármuni til að fjárfesta í bresku verslanakeðjunni Arcadia vorið 2002.

Hannes H. Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir í færslu á vefsvæði sínu á Pressunni að Landsbankamenn hefðu ákveðið án þess að „bera það undir kóng og prest að veita Baugi ekki lán í þetta ævintýri. Búnaðarbankamenn höfðu að eigin frumkvæði samband við forystumenn í stjórnmálum og fengu þau eðlilegu skilaboð að fara sér hægt, á meðan verið væri að selja bankana. Þess vegna áttu Baugsfeðgar erfitt með að útvega sér fé úr íslensku bönkunum í Arcadia-kaupin, en ekki vegna einhverrar vonsku Davíðs Oddssonar í þeirra garð," segir Hannes í grein sinni, en þetta mun hafa átt sér stað vorið 2002.

Sólon Sigurðsson, sem þá var annar af tveimur bankastjórum Búnaðarbankans, segir þessa sögukýringu Hannesar ranga, a.m.k að því er sig snerti. „Þetta kannast ég bara ekki við. Ég hef oft verið spurður að þessu, hvort að Davíð hafi reynt að hafa áhrif á mig í sambandi við Arcadia. Bæði af erlendum og innlendum blaðamönnum. Ég hef alltaf svarað því eins; hann reyndi aldrei að hafa nein áhrif á mig í sambandi við útlán, aldrei. Við það stend ég. Ég man heldur ekki eftir því að hafa leitað til neinna stjórnmálamanna um það. Það er af og frá. Þannig að ég kannast ekki við þetta," segir Sólon.

Árni Tómasson, var bankastjóri Búnaðarbankans með Sóloni á umræddum tíma. „Ég hafði ekki samband við stjórnmálamenn til að bera undir þá lánveitingu til Baugs. Það var heldur ekki haft neitt samband við mig af stjórnmálamönnum út af þessu," segir Árni. Aðspurður segist hann ekki muna hvort lán til Baugs hafi verið sérstaklega rætt innan bankastjórnar Búnaðarbankans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×