Íslenski boltinn

Heimir: Mættum liði sem vildi sigurinn meira

Jón Júlíus Karlsson skrifar

„Við spiluðum alls ekki vel í kvöld,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, eftir tap sinna manna gegn Grindvíkingum á útivelli í kvöld, 3-1. Atli Viðar Björnsson kom FH-ingum yfir snemma í fyrri hálfleik en það dugði ekki þegar yfir lauk.

„Við vorum aldrei líklegir til að skora og mættum liði sem vildi sigurinn meira. Við náðum ekki að skapa okkur nein teljandi færi, vorum að missa boltann á slæmum stöðum og hleyptum Grindvíkingum í skyndisóknir.“

Með sigrinum hefur dofnað hressilega yfir vonum FH-inga að verja Íslandsmeistaratitilinn en Heimir neitar að þeir séu úr leik.

„Við eigum ennþá möguleika og munum berjast til loka. Það er vissulega skref tilbaka að tapa þessum leik og við höfum fengið nokkur tækifæri til að koma okkur fyrir alvöru í baráttuna en aldrei tekist að nýta tækifærið,“ segir Heimir vonsvikinn.

Það var gríðarlegur munur á FH-liðinu sem lék sér að KR-ingum í bikarúrslitunum og því sem mætti í Grindavík í kvöld.

„Ef menn eru ekki samstilltir og liðsheildin ekki til staðar þá getum við tapað fyrir hverjum sem er.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×