Erlent

Íslendingur hlaut Michelin stjörnuna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Agnar Sverrisson rekur Texture.
Agnar Sverrisson rekur Texture.
Veitingahúsið Texture í London, sem er í eigu kokksins Agnars Sverrissonar og franska vínþjónsins Xavier Rousset, hefur orðið þess heiðurs aðnjótandi að fá stjörnu í veitingahúsahandbók Michelin, sem þykir einn mesti heiður sem hægt er að hljóta í veitingabransanum.

Michelin hefur gefið út stjörnulista fyrir Bretland og er Texture á meðal sex veitingahúsa sem fengu sína fyrstu stjörnu. Mikið er skrafað um það á hverju ári hver fái stjörnu og spenningurinn er svo mikill að upplýsingarnar leka út áður en listinn kemur formlega út. Það gerðist einmitt í dag en Michelin hafði áætlað að gefa bókina út í næstu viku.

„Þetta er mikill, mikill heiður og búið að vera ansi löng og erfið vinna, en þetta er loksins að skila sér," segir Agnar í samtali við Vísi. Hann segir að þessi viðurkenning eigi eftir að umbreyta öllu varðandi markaðssetningu á veitingastaðnum.

„Þetta á eftir að koma rosalega mikið af sjálfu sér um leið og bókin kemur út. Það verður auðveldara að komast í fréttir og viðtöl og í sjónvörp um leið og bókin kemur út," segir Agnar.

Agnar segir að þetta sé í fyrsta sinn sem Íslendingur hljóti stjörnu í Michelin. „Við erum bara alveg í skýjunum. Það verður bara partý næstu daga," segir Agnar.


Tengdar fréttir

Á fullu fyrir veislu ársins - myndir

Fjölmiðlar fá ekki aðgang að sjálfum veisluhöldunum en Vísir fékk leyfi til að mynda á meðan undirbúningurinn stóð sem hæst í eldhúsi Veisluturnsins aðeins klukkustund áður en hátíðin hófst í gær.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.