Innlent

Sýknaður af kylfuárás en dæmdur fyrir að skella hurð á mann

Karlmaður var sýknaður í Héraðsdómi Suðurlands í dag fyrir að hafa lamið mann í ágúst 2008 með kylfu í vinstri höndina hans þegar hann ók vegslóða sem hinn ákærði vildi meina að væri í einkaeign.

Maðurinn var hinsvegar sakfelldur fyrir að skella bílhurð á löpp fórnalambsins en sjálfur hélt hann því fram að hann hefði ekki gert það af miklu afli.

Sjálfur gaf hann þær skýringar að mennirnir hefðu margoft ekið veginn án leyfis. Hann hafi því stöðvað för þeirra og verið heldur pirraður.

Mennirnir tveir halda því fram að hann hafi tekið með sér barefli, en þeim bar ekki saman um það hverskyns barefli var um að ræða. Því næst á maðurinn að hafa lamið í vinstri hönd fórnalambsins sem var hálfur út úr bílnum. Svo skellti hann bílhurðinni á hné mannsins.

Sjálfur neitaði maðurinn sök og var svo sýknaður af því að hafa lamið hann með bareflinu gegn neitun hans. Hann var hinsvegar dæmdur fyrir að skella hurðinni á manninn.

Þá var maðurinn einnig dæmdur fyrir ölvunarakstur þegar lögreglan stöðvaði hann í maí á síðasta ári. Þá hafði hann augljóslega sætaskipti við farþega sem var með honum í bílnum og hélt því fram að hann hefði ekið bílnum.

Maðurinn hefur þegar verið sviptur ökuréttindum og er að auki gert að greiða 120 þúsund krónur í sekt til ríkissjóðs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×