Íslenski boltinn

Heimir: Heppnir að vera yfir í hálfleik

Elvar Geir Magnússon skrifar

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, var ánægður með að sínir menn hafi náð að klára bikarslaginn gegn Keflavík í kvöld. Þetta var síðasti leikur Keflvíkinga á Njarðtaksvellinum en heimavöllur þeirra er að verða tilbúinn.

FH-ingum hefur gengið illa í Keflavík undanfarin ár og Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, fékk þá spurningu eftir leik hvort það væri eitthvað öðruvísi að spila í Njarðvík? „Það hlýtur að vera fyrst að við náðum að vinna leikinn. Ég er samt fyrst og fremst ánægður með að við höfum náð að klára þetta," sagði Heimir.

„Það hefur verið stígandi í þessu hjá okkur og við verið að spila betur og betur. Fyrri hálfleikurinn í dag var samt lélegur af okkar hálfu. Við vorum of langt frá mönnunum okkar og við vorum ekki að vinna þessa grunnvinnu sem þarf. Mér fannst við heppnir að komast inn í hálfleikinn með forystu. Í seinni hálfleik fengum við mjög góð færi til að klára þennan leik en vorum kannski sjálfum okkur verstir og hleyptum þeim inn í leikinn."

Heimir vildi ekkert tjá sig um óskamótherja í næstu umferð. „No comment. Nú er ég búinn að segja nóg um bikarkeppnina," sagði Heimir.

Næsti leikur FH er gegn Stjörnunni um helgina. „Stjarnan hefur mjög fínt lið og er með marga sterka einstaklinga innan sinna raða. Einstaklinga sem eru hættulegir öllum liðum og við verðum að vera mættir klárir á sunnudaginn."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×