Innlent

Yngstu börnin bíða úti í sparnaðarskyni

MArgrét Pála Ólafsdóttir
MArgrét Pála Ólafsdóttir
Sökum árferðis í efnahagsmálum kaupir Reykjavíkurborg ekki öll pláss sem eru í boði fyrir börn á leikskólaaldri. Þjónusta við foreldra er því skert. Svo segir formaður Samtaka sjálfstæðra skóla, Margrét Pála Ólafsdóttir: „Þetta eru döpur tíðindi, þegar sagt er að eigi að verja grunnþjónustu, að yngstu börnin eru látin bíða úti þegar plássin eru fyrir hendi.“

Fréttablaðið hefur greint frá því að yfir 120 börn, eldri en átján mánaða gömul, eru á biðlista hjá leikskólasviði borgarinnar. Margrét Pála segir að hjá Hjallastefnuleikskólunum einum væri hægt að bæta við allt að þrjátíu börnum í vetur.

„Og ég veit að sjálfstæðir leikskólar hafa þungar áhyggjur af því að geta ekki innritað börn í vor heldur þurfa að bíða með laus pláss í sumar og fram á haust, vegna sparnaðar borgarinnar,“ segir hún. Þetta komi varla til með að bjarga efnahagsástandi þjóðarinnar. Spara megi með því að nýta einkaskólana.

„Við erum til dæmis með nýjan leikskóla í nýbyggðu húsi. Þannig sparaði borgin sér umtalsvert fé með því að þurfa ekki að byggja nýtt heldur borga húsnæðisstyrk með hverju rými. Okkar pláss eru því á engan máta dýrari, ef eitthvað er getur borgin sparað sér fjármagn með því að standa með sjálfstæðum skólum,“ segir hún.

Ragnar Sær Ragnarsson er starfandi formaður leikskólaráðs. Hann segist ekki skilja að hverju Margrét Pála sé að ýja eða af hverju hún ekki visti fleiri börn í sinn skóla. Ekki „nema hún sé að svindla á kerfinu eða eitthvað, ég veit það ekki“.

Allir samningar við einkarekna skóla í borginni séu fullnýttir og hann viti ekki til þess að þar séu nein ónýtt pláss. Margrét hafi ef til vill byggt við hjá sér eða reiknað sér stærri gólfflöt en áður. „Hún er þá eitthvað að svíkja þennan samning ef hún er að meina að við séum ekki að uppfylla hann,“ segir Ragnar: „Láttu mig vita ef við erum ekki að uppfylla samninga og þá skal ég senda börn.“

Áður hefur komið fram í blaðinu að sviðsstjóri leikskólasviðs útilokar ekki að borgin nýti sér laus pláss í leikskóla Hjallastefnunnar.

klemens@frettabladid.is
Ragnar Sær Ragnarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×