Fótbolti

Aron Einar: Verður ekki verra

Eiríkur Stefán Ásgeirsson á Parken skrifar
Aron á ferðinni í kvöld. Nordic Photos/AFP
Aron á ferðinni í kvöld. Nordic Photos/AFP

„Þetta verður ekki mikið verra. Ég held að íslenska þjóðin hafi haldið um hausinn í lokin, alveg eins og við allir,“ sagði Aron Einar Gunnarsson eftir leikinn gegn Dönum í kvöld.

Ísland tapaði leiknum, 1-0, og kom sigurmarkið í uppbótartíma.

„Leikskipulagið gekk fullkomlega upp. Við lögðum upp með að bíða og beita skyndisóknum. Svo fáum við afar vandræðalegt mark á okkur. Boltinn kom út í teiginn og menn runnum til og ég og Eggert erum of seinir út í manninn. Ég fæ svo boltann í gegnum klofið og hann breytir um stefnu á hælnum. Hann fór að lokum í gegnum klofið á Eggerti og inn. Það er ekkert hægt að gera við svona löguðu.“

„Það eru margir að segja að það séu kynslóðaskipti í þessu liði og það er klárlega uppgangur í því. Við erum að spila mun betur og vinna hver fyrir annan. Þegar Kolli [Kolbeinn Sigþórsson] kemur inn á er ekki einn maður fyrir framan vörnina eldri en 22 ára. Það er allt í lagi að gefa þessu tíma en við eigum einfaldlega skilið að fá meira úr því sem við höfum verið að gera.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×