Enski boltinn

Didier Drogba tryggði Chelsea enska bikarinn og sögulega tvennu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Didier Drogba og Ashley Cole fagna hér saman sigurmarki Chelsea.
Didier Drogba og Ashley Cole fagna hér saman sigurmarki Chelsea. Mynd/AP
Didier Drogba skoraði eina markið í 1-0 sigri Chelsea á Portsmouth í viðburðarríkum úrslitaleik ensku bikarkeppninnar á Wembley í dag. Markið skoraði Drogba beint úr aukaspyrnu á 58. mínútu og aðeins þremur mínútum eftir að Peter Cech varði víti frá Portsmouth manninum Kevin Prince-Boateng .

Chelsea er þar með tvöfaldur meistari í fyrsta sinn í sögu félagsins en þetta var í fyrsta sinn í átta ár sem lið vinnur bæði enska meistaratitilinn og ensku bikarkeppnina á sama tímabili. Arsenal hafði gert það síðast árið 2002 og þá var Ashley Cole, núverandi leikmaður Chelsea, í liði Arsenal.

Chelsea-liðið átti fimm skot í tréverkið í fyrri hálfleik en inn vildi boltinn ekki. Besta færið fékk Salomon Kalou þegar hann skaut í slánna úr markteignum fyrir framan opið mark. Didier Drogba átti einnig frábæra aukaspyrnu sem David James varði slánna og niður á marklínuna.

Kevin Prince-Boateng fékk kjörið tækifæri til að koma Portsmouth í 1-0 á 55. mínútu en hann lét Peter Cech verja frá sér vítaspyrnu sem Aruna Dindane fékk eftir brot hjá Juliano Belletti.

Didier Drogba kom Chelsea í 1-0 aðeins þremur mínútum síðar þegar hann skoraði beint úr aukaspyrnu af rúmlega 20 metra færi en skotið hans fór í stöngina og inn.

Frank Lampard fékk möguleika til að innsigla sigurinn á 88. mínútu en hann skaut þá framhjá úr vítaspyrnu sem hann fékk sjálfur.

Ashley Cole, leikmaður Chelsea setti nýtt met með því að verða bikarmeistari í sjötta sinn á ferlinum en enginn hefur oftar unnið elstu bikarkeppni í heimi. Cole vann þrisvar  bikarinn með Arsenal (2002, 2003 og 2005) og var nú að vinna hann í þriðja sinn með Chelsea (2007, 2009 og 2010).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×