Innlent

Gæta fórnarlambsins bæði á nóttu og degi

Það var ekki að sjá að sakborningar í mansalsmálinu svokallaða kviðu því sem þeirra beið í dómsal, þegar þeir voru leiddir til þingfestingar í Héraðsdómi Reykjaness í gær. 
Fréttablaðið/stefán
Það var ekki að sjá að sakborningar í mansalsmálinu svokallaða kviðu því sem þeirra beið í dómsal, þegar þeir voru leiddir til þingfestingar í Héraðsdómi Reykjaness í gær. Fréttablaðið/stefán
Meint fórnarlamb sakborninganna í mansalsmálinu á Suðurnesjum hefur verið í 24 tíma gæslu og notið hámarksverndar hér á landi. Stúlkan, sem er litháísk, tæplega tvítug, er talin í stórhættu af hálfu sakborninga, eða manna sem þeir þekkja hér.

Þetta kom fram í Héraðsdómi Reykjaness í gær, þar sem þingfest var mál á hendur sex karlmönnum, fimm Litháum og Íslendingi. Ríkis­saksóknari hefur ákært mennina fyrir mansal. Með hagsmuni fórnar­lambsins í huga úrskurðaði dómari, að framkominni kröfu réttar­gæslumanns litháísku stúlkunnar, að þinghald skyldi vera lokað. Verjendur sakborninganna mótmæltu þessum úrskurði dómara. Þá úrskurðaði dómari að sakborningar skuli víkja úr dómsal meðan stúlkan ber vitni.

Íslendingurinn mætti ekki við þingfestingu málsins, en Litháarnir neituðu allir sök.

Í ákæru ríkissaksóknara segir að stúlkan hafi verið beitt ólögmætri nauðung, frelsissviptingu og ótilhlýðilegri meðferð áður en og þegar hún var send til Íslands 9. október. Sama hafi gilt um hana í meðförum sexmenninganna hér á landi, sem tekið hafi við henni, flutt hana og hýst í því skyni að notfæra sér hana kynferðislega. Fyrir komuna hingað hafi hún verið svipt frelsi sínu í Litháen og neydd til að stunda vændi þar í landi. Áður en hún var send af stað til Íslands hafi hár hennar verið klippt og litað og tekin af henni ljósmynd sem sett var í fölsuð skilríki.

Einn Litháanna fimm, sem ákærðir hafa verið fyrir mansal, hefur einnig verið ákærður fyrir líkamsárásir, fjárkúgun og hylmingu.

Manninum er gefið að sök sérstaklega hættuleg líkamsárás, þar sem hann stakk annan mann í lærið með hnífi, þannig að af hlaust um fjögurra sentimetra langt sár. Atvikið átti sér stað í september 2009.

Þá er maðurinn ákærður fyrir aðra líkamsárás. Laugardaginn 29. nóvember 2008, fór hann í félagi við annan á heimili manns, veittist að honum með ofbeldi og sló hann margsinnis hnefahöggum og sparkaði í höfuð hans og líkama. Maðurinn hlaut áverka í andliti og á líkama, auk blóðmigu.

Í þriðja lagi er maðurinn ákærður fyrir fjárkúgun. Hann tók bíl af manni með ofbeldi og hótunum og ók honum í heimildarleysi í nokkrar vikur. jss@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×