Íslenski boltinn

Umfjöllun: Stjarnan sótti langþráðan útisigur í Krikann

Elvar Geir Magnússon skrifar
Gunnleifur Gunnleifsson fékk rautt spjald í dag.
Gunnleifur Gunnleifsson fékk rautt spjald í dag.

Stjarnan gerði góða ferð til granna sinna í Hafnarfirði og vann FH 3-1 í Krikanum eftir að hafa verið marki undir í hálfleik.

FH-ingar sem hafa verið á flottu róli að undanförnu virkuðu værukærir og kraftlausir á löngum köflum í leiknum. Þeir voru þó með yfirhöndina í fyrri hálfleiknum og leiddu 1-0 í hálfleik.

Eina markið í fyrri hálfleiknum skoraði Ólafur Páll Snorrason með skoti yfir Bjarna Þórð Halldórsson í marki Stjörnunnar. Líklega átti þetta að vera fyrirgjöf hjá Ólafi en inn fór boltinn.

Stjarnan ógnaði ekkert í fyrri hálfleiknum, skapaði sér ekki eitt einasta færi. Seinni hálfleikur byrjaði mjög rólega og bæði lið voru í fyrsta gír. En það má aldrei slaka á gegn Stjörnunni því liðið hefur leikmenn sem geta refsað hvenær sem er.

Sú varð raunin í kvöld. Steinþór Freyr Þorsteinsson slapp í gegn þegar rúmar tuttugu mínútur voru eftir og braut markvörðurinn Gunnleifur Gunnleifsson á honum. Þorvaldur Árnason, mjög góður dómari leiksins, dæmdi vítaspyrnu og rak Gunnleif af velli. Vendipunktur leiksins.

Á vítapunktinn steig Halldór Orri Björnsson og skoraði af miklu öryggi. Nokkrum mínútum síðar tók Stjarnan svo forystu þegar Ellert Hreinsson skoraði framhjá Gunnari Sigurðssyni sem kom í mark FH eftir brottvísun Gunnleifs.

Lokamínúturnar í leiknum voru verulega spennandi og átti Gunnar Már Guðmundsson skalla í slá undir lok venjulegs leiktíma. Bakvörðurinn Baldvin Sturluson átti svo síðasta orðið þegar hann skoraði með laglegum hætti þriðja mark Stjörnunnar og úrslitin 1-3.

Ansi langþráður útisigur hjá Stjörnunni en síðasti sigur liðsins á útivelli í deildinni kom í maí í fyrra. Þeir fögnuðu vel og innilega í klefanum eftir leik enda ekki á hverjum degi sem þeir fagna þremur stigum á útivelli. Mikilvægur sigur sem kemur liðinu í þennan gríðarlega þétta pakka sem er í efri helmingi deildarinnar.

Það er ekki hægt að ljúka þessari grein án þess að minnast á Marel Baldvinsson sem var óvænt í hjarta varnarinnar í þessum leik. Marel átti frábæran leik í miðverðinum hjá Stjörnunni.

FH - Stjarnan 1-3

1-0 Ólafur Páll Snorrason (20.)

1-1 Halldór Orri Björnsson (víti 68.)

1-2 Ellert Hreinsson (75.)

1-3 Baldvin Sturluson (90.)

Áhorfendur: 823

Dómari: Þorvaldur Árnason 8

Skot (á mark): 7-8 (3-4)

Varin skot: Gunnleifur 0, Gunnar 1 - Bjarni 1

Horn: 2-4

Aukaspyrnur fengnar: 12-13

Rangstöður: 2-2

FH (4-3-3):

Gunnleifur Gunnleifsson 5

Guðmundur Sævarsson 6

(77. Jón Ragnar Jónsson -)

Tommy Nielsen 5

Pétur Viðarsson 6

(46. Gunnar Már Guðmundsson 4)

Hjörtur Logi Valgarðsson 7

Björn Daníel Sverrisson 5

Matthías Vilhjálmsson 7

Torger Motland 5

(66. Gunnar Sigurðsson 5)

Atli Guðnason 6

Ólafur Páll Snorrason 5

Atli Viðar Björnsson 5

Stjarnan (4-5-1):

Bjarni Þórður Halldórsson 5

Baldvin Sturluson 8

Marel Baldvinsson 8* - Maður leiksins

Daníel Laxdal 7

Jóhann Laxdal 6

Dennis Danry 6

Bjarki Páll Eysteinsson 4

(56. Atli Jóhannson 6)

Halldór Orri Björnsson 6

Steinþór Freyr Þorsteinsson 7

(77. Ólafur Karl Finsen -)

Þorvaldur Árnason 5

Ellert Hreinsson 6




Fleiri fréttir

Sjá meira


×