Innlent

Yfirlýsing frá starfsfólki Stöðvar 2 og Vísis

Starfsfólk og fréttamenn Stöðvar 2 og Vísis harma uppsögn Óskars Hrafns.
Starfsfólk og fréttamenn Stöðvar 2 og Vísis harma uppsögn Óskars Hrafns.

Fréttamenn og aðrir starfsmenn á fréttastofu Stöðvar 2 og Vísis harma uppsögn Óskar Hrafns Þorvaldssonar úr starfi fréttastjóra. Undir stjórn hans hefur fréttastofan sýnt djörfung og ábyrgð á erfiðum tímum í þjóðfélaginu. Óskar Hrafn hefur staðið heill á bakvið fréttamenn Stöðvar 2 og Vísis þegar sótt hefur verið að fréttastofunni úr ýmsum áttum og aldrei látið annað en fréttamat og kröfuna um miðlun upplýsinga til almennings ráða ferðinni í störfum sínum.

Á fundi með honum í dag þar sem hann greindi frá uppsögn sinni og ástæðunni fyrir henni, var einróma skorað á hann að halda áfram störfum. Óskar Hrafn hefur sjálfur gert grein fyrir því opinberlega hvers vegna hann hefur ákveðið að hverfa úr stóli fréttastjóra. Þær ástæður sýna að hann er samkvæmur sjálfum sér og er hann maður að meiru fyrir vikið. Mættu fleiri í þjóðfélaginu taka hann sér til fyrirmyndar í þeim efnum. Fréttamenn og annað starfsfólk á Stöð 2 og Vísi telja engu að síður að yfirlýsing sú sem gefin var í fréttum miðla okkar í gær vegna fréttar um meinta fjármagnsflutninga hóps manna og dregin var til baka með yfirlýsingunni, hafi dugað til. Óskar Hrafn gerir meiri kröfur til sjálfs síns og sýnir það með ákvörðun sinni og þótt okkur sé það sárt, þá virðum við þá ákvörðun hans.

Við treystum því að yfirstjórn fyrirtækisins vandi valið á eftirmanni Óskars Hrafns en erfitt verður að fylla hans skarð á fréttastofunni. Það er alltaf mikilvægt að hafa einarðan og sjálfstæðan leiðtoga á fréttastofu, hvað þá á tímum eins og nú ríkja í íslensku samfélagi. Undir stjórn Óskars Hrafns hefur fréttastofan náð að vera í fararbroddi í umfjöllun um þá miklu atburði sem skekja íslenskt samfélag, enda hefur það sýnt sig í auknu áhorfi á fréttir Stöðvar 2 og auknum lestri á Vísi.

Fréttamenn og annað starfsfólk á fréttastofu Stöðvar 2 og Vísis þakka Óskari Hrafni samstarfið og óska honum alls hins besta í hverju því sem hann tekur sér fyrir hendur í framtíðinni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×