Enski boltinn

Gallas væntanlega á förum frá Arsenal

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Franski varnarmaðurinn William Gallas hefur líklega spilað sinn síðasta leik fyrir Arsenal en félagið ætlar ekki að mæta himinháum launakröfum leikmannsins.

Samningur Gallas við Arsenal rennur út í sumar og eru viðræður í gangi um nýjan eins árs samning.

Arsene Wenger, stjóri félagsins, hefur gefið í skyn að hann væri til í að breyta stefnu félagsins og bjóða eldri leikmanni eins og Gallas meira en eins árs samning en stjórnarformaður félagsins segir það ekki koma til greina.

Arsenal er þekkt fyrir að hleypa leikmönnum ekki upp með neina stæla í samningaviðræðum og miðað við þær tölur sem Gallas er að fara fram á eru nánast engar líkur á því að hann verði áfram.

„Hann er að fara fram á svakaleg laun og við getum ekki sætt okkur við þær tölur. Vissulega viljum við halda honum hjá félaginu en við verðum að draga línuna einhvers staðar í launamálunum. Ef hann fær þessa peninga annars staðar þá bara gott hjá honum en að sjálfsögðu vonumst við til þess að ná lendingu á endanum," sagði Peter Hill-Wood, stjórnarformaður félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×