Enski boltinn

Hermann fær líklega ekki nýjan samning hjá Portsmouth

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hermann Hreiðarsson í leik með Portsmouth.
Hermann Hreiðarsson í leik með Portsmouth. Nordic Photos / Getty Images

Ef marka má ummæli skiptastjóra enska knattspyrnufélagsins Portsmouth er Hermann Hreiðarsson í hópi þeirra sem eru á leið frá félaginu nú í sumar.

Samningur Hermanns við félagið rennur út í sumar og sagði Andrew Andronikou við vefmiðilinn Soccernet að félagið myndi ekki endurnýja neina samninga nú eftir leiktíðina.

Andronikou er skiptastjóri Portsmouth sem er nú í greiðslustöðvun. Liðið féll úr ensku úrvalsdeildinni í vor en mætir Chelsea í úrslitum ensku bikarkeppninnar nú um helgina. Það verður því síðasti leikur margra í liðinu.

Hermann mun ekki spila í leiknum þar sem hann sleit hásin í leik með liðinu fyrr á tímabilinu.

„Um helmingur þeirra sem spila í bikarúrslitaleiknum munu fara frá félaginu. Þetta er staðreynd lífsins," sagði Andronikou. „Við viljum halda hryggjarstykki liðsins en aðrir verða að fara."

„Þeir sem fara skiptast í þrjá flokka - þá sem eru á lánssamningi, þeir sem eru á sölulista og þeir sem eru að renna út á samningi."

„Jamie O'Hara er í láni frá Tottenham og verður sendur aftur þangað. Aruna Dindane var lánaður til félagsins frá Lens og mun nú snúa sér til þeirra. David James verður samningslaus og fær ekki nýjan samning og svo framvegis."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×