Enski boltinn

Arsene Wenger ætlar að taka í höndina á Phil Brown í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það brutust út slagsmál í síðasta leik Arsenal og Hull.
Það brutust út slagsmál í síðasta leik Arsenal og Hull. Mynd/Getty Images
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, ætlar að gleyma gömlum stríðum og taka í höndina á Phil Brown, stjóra Hull, fyrir leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Það hefur ýmislegt gengið á í viðureignum liðanna síðustu tvö ár og í þeim síðasta brutust út slagsmál þar sem 21 leikmaður kom við sögu. Árið á undan sakaði Phil Brown, Cesc Fabregas, um að hafa hrækt á aðstoðarmann sinn í leikslok en Fabregas var þá í leikbanni og aðeins áhorfandi að leiknum.

Arsene Wenger neitaði að taka í höndina á Phil Brown eftir síðasta leik sem endaði með 3-0 sigri Arsenal.

„Já auðvitað tek ég í höndina á honum. Við höfum lent í jöfnum leikjum og spennan hefur verið mikil. Það er eina skýring mín á því sem hefur gerst milli þessara liða. Ég hef ekkert á móti Phil Brown og ég held að við virðum hvorn annan," sagði Wenger.

„Við ætlum bara að einbeita okkur að því að spila vel í þessum leik. Það gerðist ekki mikið í þessum leik og enginn meiddist. Það brutust úr smá slagsmál en bæði lið hafa tekið út sína refsingu vegna þeirra. Leikurinn var ekki grófur og Hull reynir líka að spila eins vel og þeir geta," sagði Wenger.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×