Íslenski boltinn

Alfreð reynir að hugsa ekki um njósnarana og áhugann

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Fréttablaðið/Anton
Fjórir leikir fara fram í Pepsi-deild karla í kvöld. Keflvíkingar taka á móti Stjörnunni, Framarar á móti Selfyssingum, Valsmenn á móti KR-ingum og Alfreð Finnbogason og félagar í Breiðabliki á móti botnliði Hauka.

Fjöldi útsendara verður á leiknum í kvöld til að fylgjast með Alfreð. Þeir eru frá Frakklandi, Danmörku og Póllandi en þaðan hefur einmitt borist tilboð frá Lechi Gdansk. Samningaviðræður Blika og pólska félagsins eru enn í gangi en það hefur áhuga á að kaupa Alfreð eða fá hann að láni.

Áður var talið að tilboðið hljóðaði upp á um fimmtán milljónir íslenkra króna en samkvæmt áreiðanlegum heimildum Fréttablaðsins er það mun hærra.

„Ég reyni bara að hugsa um að standa mig. Auðvitað hugsar maður aðeins um þetta en ég hef áður vitað af því að menn séu að fylgjast með mér. Ég breyti ekki út af neinu, ég er ekkert að fara að reyna að klára leikinn einn heldur snýst þetta um liðið," segir sóknarmaðurinn geðþekki.

Hann á ekki von á auðveldum leik gegn Haukum. „Ef maður mætir ekki klár á maður ekki von á góðu. Það eru engir auðveldir leikir í þessari deild. Haukar hafa staðið sig vel í mörgum leikjum og hirt stig af KR og fleiri liðum. Þá er eflaust farið að þyrsta í fyrsta sigurinn líka," segir Alfreð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×