Íslenski boltinn

Halldór Orri: Ég nýtti mér aðstæðurnar

Kristinn Páll Teitsson skrifar
„Þetta er fínt stig, við tökum það þótt maður vilji auðvitað alltaf sigra, maður tekur þetta hinsvegar á erfiðum útivelli" sagði Halldór Orri Björnsson leikmaður Stjörnunnar eftir 2-2 jafntefli í Keflavík í kvöld.

„Við lögðum upp með að halda áfram þessari spilamennsku sem við höfum verið að sýna upp á síðkastið. Við hinsvegar byrjum með vindinn gegn okkur og liggjum því aftur og beitum skyndisóknum, svo verða hlutverkaskipti í hálfleik. Leikurinn einkenndist af þessu roki og spilamennskan eftir því."

Stjörnumenn lentu tvisvar undir en náðu að koma aftur og fá stig út úr þessum leik.

„Við fengum á okkur mark strax á upphafsmínútunum og það hefur verið einkennandi fyrir leik okkar, við þurfum hinsvegar að fara að laga það. Við sýndum hinsvegar góðan karakter með að ná að jafna strax í fyrri hálfleik og svo aftur í seinni hálfleik."

Halldór Orri jafnaði sjálfur metin á 80. Mínútu með skrautlegu marki en þá gaf hann fyrirgjöf sem lak í stöngina og inn.

„Þetta var fyrirgjöf, ég sá Garðar koma í hlaupinu en maður reynir svosem alltaf að miða á fjærhornið svo hann endi á markinu ef hann fer yfir allan pakkann. Ég nýtti mér aðstæðurnar" sagði Halldór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×