Enski boltinn

Lið Chelsea gegn United: Hilario í markinu og Drogba á bekknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea
Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea Mynd/Getty Images
Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea, er búinn að ákveða byrjunarlið sitt á móti Manchester United í leiknum um Samfélagsskjöldinn á sunnudaginn. Ancelotti ætlar að tefla fram sama byrjunarliði sem tapaði á móti Hamburger SV í síðasta undirbúningsleiknum sínum fyrir tímabilið.

Þetta þýðir að Hilario verður í markinu og Didier Drogba byrjar á bekknum. „Þetta verður sama lið. Ég á reyndar eftir að velja markvörðinn en ég held að ég láti Hilario byrja," sagði Carlo Ancelotti í viðtali við heimasíðu Chelsea.

„Ég mun byrja með sömu útileikmenn og á móti Hamburger. Sturridge er síðan klár og Drogba verður á bekknunm. Alex, Cech og Bosingwa geta ekki spilað þennan leik vegna meiðsla," bætti Ancelotti við.

Branislav Ivanovic og John Terry verða því saman í miðri vörninni, Paulo Ferreira og Ashley Cole byrja sem bakverðir, Michael Essien, Frank Lampard og John Mikel Obi eru saman á miðjunni og í framlínunni verða þeir Salomon Kalou, Nicolas Anelka og Florent Malouda.

„Þetta er mikilvægur leikur fyrir bæði lið enda er þetta gott stöðu-tékk fyrir tímabilið. Við viljum sjá hvar við stöndum fyrir tímabilið og vitum að það eru aldrei auðveldir leikir á móti Manchester United," sagði Ancelotti.

Chelsea tapaði þremur síðustu undirbúningsleikjum sínum fyrir tímabilið og liðið hefur verið að gera mikið af varnar- og markmannsmistökum í þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×