Íslenski boltinn

Atli Sveinn: Engin vonleysistilfinning

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Atli Sveinn Þórarinsson.
Atli Sveinn Þórarinsson. Mynd/Anton
Atli Sveinn Þórarinsson, fyrirliði Vals, segir enga vonleysistilfinningu hafa gripið um sig í liðinu en liðið er nú með tvö stig eftir fyrstu þrjá leiki tímabilsins.

Valur tapaði í kvöld, 2-0, fyrir Breiðabliki á heimavelli en allir leikir Vals í vor hafa farið fram á Vodafone-vellinum.

„Við eigum að gera betur eftir þrjá heimaleiki," viðurkenndi Atli. „Ég er svekktur eftir þennan leik en núna er það bara næsti leikur sem gildir og hann verður gegn Grindavík á þriðjudaginn. Það er engin vonleysistilfinning komin í hópinn. Við vitum bara að við þurfum að leggja okkur betur fram í Grindavík því þar ætlum við okkur að taka stig."

„Við byrjuðum mjög vel í kvöld og komum út af krafti. Við ætluðum að taka þá á okkar heimavelli. En svo skoruðu þeir. Við héldum áfram en þeir skoruðu svo aftur."

„Þeir spila góðan sóknarleik og við nýttum ekki okkar færi. Það vantaði meiri aga í okkar varnarleik og við vorum ekki nógu duglegir að skila okkur heim þegar þeir beittu skyndisóknum."

„Blikar eru duglegir að refsa fyrir mistök og þó svo að þetta hafi stundum litið ágætlega út hjá okkur þá var það ekki nóg."

Atli Sveinn sagði það vissulega erfitt að halda dampi eftir að lenda undir en að það sé eitthvað sem þeir þurfi að vinna í.

„Við munum aftur lenda undir í sumar og við þurfum að geta snúið leikjum líka við."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×