Fótbolti

Agger hefur ekki áhyggjur af baulinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Kaupmannahöfn skrifar
Daniel Agger.
Daniel Agger. Mynd/AFP
Daniel Agger hefur ekki áhyggjur þó svo að áhorfendur á Parken hafi baulað á danska liðið lengi vel í leiknum gegn Íslandi í gær.

Áhorfendur létu vel í sér heyra þegar flautað var til hálfleiks og staðan enn markalaus. Þegar leið á seinni hálfleikinn og Dönum tókst ekki að brjóta ísinn bauluðu áhorfendur á Parken enn hærra.

„Hvað mig varðar skiptir baulið ekki miklu máli. Ég lét ekki stemninguna á vellinum hafa áhrif á mig, hvorki á einn veginn eða hinn. Þetta var leikur þar sem við þurftum að vera þolinmóðir og það vorum við," sagði Agger.

„Við vorum að spila upp á sigur og við unnum leikinn."

Hann sagði að það hefði verið blanda af því að danska liðið væri ungt og óreynt og þéttum varnarleik íslenska liðsins sem réði því hvernig leikurinn var spilaður í gær.

„Það var erfitt að skapa færi þegar við erum með marga nýja leikmenn og að spila gegn liði sem var með ellefu menn fyrir aftan boltann allan leikinn. Við vorum of beinskeyttir og þannig á maður ekki að spila gegn Íslandi."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×