Innlent

Endurkoma á markað í óvissu

forstjóri teva Shlomo Yanai, forstjóri Teva, hefur áætlanir um að tvöfalda tekjur fyrirtækisins á næstu fimm árum.
forstjóri teva Shlomo Yanai, forstjóri Teva, hefur áætlanir um að tvöfalda tekjur fyrirtækisins á næstu fimm árum.

Ísraelska lyfjafyrirtækið Teva hafði betur í samkeppninni um þýska samheitalyfjafyrirtækið Ratiopharm. Actavis var með í baráttunni frá upphafi. Erlendir fjölmiðlar hafa eftir greinendum að niðurstaðan sé vonbrigði fyrir þá sem eftir sitji. Áætlanir voru á borðinu um skráningu Actavis á hlutabréfamarkaði gengju kaupin í gegn, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Óvíst er hvort af verði nú.

Tilboð Teva í Ratiopharm hljóðar upp á 3,63 milljarða evra, jafnvirði rúmra 626 milljarða króna. Það þykir í hærri kantinum, að mati Bloomberg, sem bætir þó við að með kaupunum stefni í að áætlanir Shlomo Yanais, forstjóra Teva, um tvöföldun tekna fyrir árið 2015 geti gengið eftir.

Deutsche Bank í Þýskalandi, helsti lánardrottinn Actavis, hélt um stjórnartaumana í tilboðsferlinu. Taldi bankinn hagstætt að fyrir­tækin gengju í eina sæng enda yki það líkurnar á að Actavis geti staðið við skuldbindingar sínar og greitt bankanum til baka í kringum fjögurra milljarða evra, jafnvirði tæpra sjö hundruð milljarða króna, sem bankinn lagði Novator, félagi Björgólfs Thors Björgólfssonar, til í kringum yfirtökuna á Actavis sumarið 2007. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×