Enski boltinn

Himinháar skuldir Glazer-fjölskyldunnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Avram Glazer, stjórnarformaður Manchester United.
Avram Glazer, stjórnarformaður Manchester United. Nordic Photos / Getty Images

Glazer-fjölskyldan, eigendur Manchester United, skuldar meira en 208 milljarða króna eftir því sem kom fram í fréttaskýringaþætti BBC, Panorama, í gær.

Stuðningsmenn Manchester United hafa margítrekað lýst yfir óánægju sinni með eigendur félagsins og munu þessar fregnir væntanlega auka óánægjuraddirnar enn.

Talsmaður fjölskyldunnar sagði í þættinum að eignir fjölskyldunnar væru tæplega 380 milljarða króna virði.

En þrátt fyrir það var sýnt fram á það í þættinum að fjölskyldan hefur nýlega tekið út lán með veði í verslunarmiðstöðvarkeðju hennar annars vegar og ruðningsliðinu Tampa Bay Buccaneeers hins vegar.

Skuldir Manchester United nema um 132 milljörðum króna og munu vaxtagreiðslur á hluta þeirra upphæðar hækka upp í 16,25 prósent á næstunni.

Stuðningsmenn félagsins hafa bent á að þó svo að það hafi selt Portúgalann Cristiano Ronaldo til Real Madrid fyrir rúma fimmtán milljarða króna hafi leikmaður sem þykir í sama gæðaflokki og hann ekki verið keyptur til félagsins. Þar að auki hafi á sama tíma miðaverð á leiki hækkað um næstum þriðjung.

Eigendur hafa fullyrt að Alex Ferguson standi til boða að fá pening til leikmannakaupa hafi hann áhuga á því.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×