Innlent

Jón hræðist ekki hótanir LÍÚ

Jón Bjarnason.
Jón Bjarnason. Mynd/GVA
Landbúnaðar-og sjávarútvegsráðherra segist enga trú hafa á því að útvegsmenn hlaupist undan samfélagslegri ábyrgð og sigli flotanum í land vegna áforma ríkisstjórnarinnar fyrningu kvótans. Útvegsmenn eigi sæti í starfshópi um framtíðarskipan fiskveiðistjórnunarmála og geti vel komið sínum málum á framfæri þar.

Útgerðarmenn berjast nú gegn áformum ríkisstjórnarinnar um að taka kvótann af þeim í áföngum með svokallaðri fyrningarleið. Á stjórnarfundi LÍÚ fyrir jól var samþykkt að ef allt um þryti yrði flotanum siglt í land og hann bundinn við bryggju.

Jón Bjarnason, landbúnaðar og sjávarútvegsráðherra, segir útvegsmenn eiga sæti í starfshópi sem nú vinni að framtíðarskipan fiskveiðistjórnunarmála og sérstaklega því sem lúti að eignarhaldi og ráðstöfunarétti á aflaheimildum. Hann segir að þar geti þeir komið sínum áherslumálum á framfæri.

„Ég hef ekki trú á því að LÍÚ víkist undan samfélagslegri ábyrgð og fari að sigla í land. Ég treysti þeim frekar til þess að koma og halda áfram í þessari umræðu. Þeir vita um stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum efnum. Vita hvað takast á við og ég treysti að þeir taki þátt í því starfi að fullri ábyrgð. Ég hef enga trú á því að LÍÚ sé neitt bættara með því að hóta einum né neinum í þessum efnum," segir Jón.

Starfshópurinn skilar af sér áliti á næstu vikum.

„Það er náttúrulega ljóst að það er engin sátt í samfélaginu um það fyrirkomulag á eignarhaldi sem nú er. Á því þarf að finnast betri lausn þannig að samfélagsleg sátt verði um," segir Jón.

Stjórnarmenn í Skipstjóra- og stýrimannafélaginu Verðandi í Vestmanneyjum, eru æva reiðir út í sjávarútvegsráðherra, fyrir ýmsar fyrirætlanir um breytta stöðu sjávarútvegsins. Nú síðast fyrir nýjar reglur um útflutning á óunnum fiski í gámum. Í greinargerð frá fundinum í gærkvöldi, segjast þeir vera sammála þeim félögum í LÍÚ, sem vilja sigla flotanum í land og fá hin ýmsu mál á hreint. Við núverandi aðstæður vilji engin fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi.


Tengdar fréttir

LÍÚ samþykkti að sigla flotanum í land

Útvegsmenn hafa samþykkt að fiskiskipaflotanum verði siglt í land og hann bundinn við bryggju láti ríkisstjórnin ekki af áformum um fyrningu kvótans. Stjórnvöld hafa verið látin vita af þessum áformum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×