Innlent

LÍÚ samþykkti að sigla flotanum í land

Útvegsmenn hafa samþykkt að fiskiskipaflotanum verði siglt í land og hann bundinn við bryggju láti ríkisstjórnin ekki af áformum um fyrningu kvótans. Stjórnvöld hafa verið látin vita af þessum áformum.

Útgerðarmenn berjast nú ákaft gegn áformum ríkisstjórnarinnar að taka kvótann af þeim í áföngum með svokallaðri fyrningarleið. Það er til marks um hitann í þeirra röðum að á stjórnarfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna fyrir jól var gerð sérstök stjórnarsamþykkt þess efnis að ef allt um þryti yrði flotanum siglt í land og hann bundinn við bryggju.

Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, segir að enginn sé að segja að þetta muni gerast og engin ákvörðun hafi verið tekin og þetta sé algjört neyðarúrræði. Hann staðfestir að stjórnvöld hafi verið látin vita af þessari stjórnarsamþykkt.

Það sem fer sérstaklega fyrir brjóstið á útvegsmönnum nú er að þeir telja að sjávarútvegsráðherra sé með frumvarpi sínu um skötusal, sem er í meðförum Alþingis, í raun að hefja fyrningu, þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi heitið því síðastliðið sumar að breytingar á kvótakerfinu yrðu settar í sáttafarveg með skipun sérstakrar nefndar.

Spurður hvort þetta sé rétt baráttuaðferð, að hóta að sigla í land, kveðst Friðrik ekki líta á þetta sem hótun. Það séu stjórnvöld sem séu að hóta. Þau hóti því að taka veiðiheimildir af fyrirtækjunum og menn hljóti að bregðast við hótunum um að setja þau í þrot og þar með íslenskan sjávarútveg í gjaldþrot. Það sé ekki það sem Íslendingar þurfi núna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×