Innlent

Telur taflmennina íslenska

Einn helsti sérfræðingur Breska þjóðminjasafnsins í skák og öðrum borðleikjum hefur skipt um skoðun og telur nú að taflmenn frá Ljóðhúsum séu íslensk smíði. Umsjónarmaður taflmannanna í breska þjóðminjasafninu varar við að of stórar ályktanir séu dregnar af málvísindalegum rökum, en útilokar ekki að mennirnir séu íslenskir að uppruna.

Þessi menn eru mikil listasmíði. Íslendingar eru þekktir um allan heim fyrir handritin - en nú virðast erlendir fræðimenn viðurkenna að hér hafi ekki einungis verið mikil sagna og handritamenning á miðöldum, heldur líka útskurður.

Málið snýst um níutíu og þrjá taflmenn, sem skornir voru úr rostungstönnum á tólftu öld. Þeir fundust í Suðureyjum á þarsíðustu öld, en erlendir fræðimenn hafa flestir talið að þeir séu norskir að uppruna. hafir orðið til í Niðarósi, eða Þrándheimi, en nýlegar hugmyndir benda til þess að þeir hafi verið búnir til hér.

Doktor Irvin Finkel í British Museum, sem hér sést á tali við Guðmund G. Þórarinsson, sagði í samtali við fréttastofu í morgun, að hann væri nú sannfærður um að mennirnir séu íslenskir að uppruna - en almenn skoðun hefur verið önnur.

Doktor Irvin Finkel, starfar í miðausturlandadeild Breska þjóðminjasafnins, en skák og aðrir borðleikir eru eitt hans helsta rannsóknarsvið og taflmennina frá Lewis þekkir hann vel. Flestir þeirra eru raunar geymdir þarna í safninu og milljónir manna skoða þá árlega.

James Robinson, sagnfræðingur við safnið, er umsjónarmaður taflmannanna frá Lewis, eða Ljóðhúsum.

„Ég útiloka ekki að taflmennirnir séu upprunnir á Íslandi. Hins vegar má ekki draga of miklar ályktanir af óbeinum sönnunargögnum," segir hann í viðtali við fréttastofu.

Guðmundur G. Þórarinsson, verkfræðingur, telur að þeir séu héðan og bendir meðal annars á biskupinn. Hann líti út eins og kirkjulegur biskup, en það sé nýmæli. Jón G. Friðjónsson, prófessor í málfræði við Háskóla Íslands segir það óhrekjanlega staðreynd að orðið biskup í skákmerkingu sé eldra í íslensku máli en í ensku. Það muni um tvö hundruð árum á dæmum um orðið í íslenskum handritum og elsta dæmi um orðið í þessari merkingu í enskri tungu. Orðið hlaupari er notað um þennan taflmann í öðrum tungumálum á germönsku málsvæði.


Tengdar fréttir

Taflmennirnir gætu verið grænlenskir

Ekki er loku fyrir það skotið að taflmennirnir frá Ljóðhúsum í Suðureyjum, hafi verið búnir til á Grænlandi. Við greindum frá því í fréttum stöðvar 2 í gær, að Guðmundur G. Þórarinsson, verkfræðingur, telur að um níutíu taflmenn úr rostungstönnum hafi verið gerðir hérlendis í kringum árið 1200. Þeir fundust á eynni Ljóðhúsum, undan ströndum Skotlands, árið 1831. Flestir þeirra eru geymdir í British museum og þykja hinar mestu gersemar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×