Íslenski boltinn

Heimir: Góður leikur af hálfu FH

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH.
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH. Mynd/Vilhelm
Heimir Guðjónsson var ánægður með leik sinna manna í FH en liðið vann góðan 2-0 útisigur á Selfossi í kvöld.

„Þetta var góður leikur af hálfu FH," sagði Heimir. „Við höfum verið að spila svona vel að undanförnu og það hefur verið stígandi í liðinu. Við vorum því harðákveðnir í að halda þessari spilamennsku áfram og unnum því mjög sanngjarnan sigur. Við vorum klaufar upp við markið, við sköpuðum okkur mikið af bæði færum og hálffærum þar sem síðasta sendingin var að klikka. Það hafa þó lið verið að koma hingað og eiga í erfiðleikum þannig ég er sáttur með stigin."

Margir spáðu FH-ingum harðri titilbaráttu fyrir tímabil sem byrjaði þó ekki vel en liðið hefur verið að spila betur og er komið á ágætis siglingu en FH hefur nú fengið 10 af síðustu 12 stigum mögulegum.

„Við byrjuðum mótið ekki eins og við vildum, hins vegar hafa orðið framfarir og það er það sem við viljum sjá. Við megum þó ekki gleyma okkur eitt andartak, við eigum erfiðan leik gegn Keflavík næst og það þarf að koma sér í stand fyrir það."

Dregið var í dag í undankeppni Meistaradeildarinnar og fengu FH kunnuglegan mótherja, BATE Borisov en þessi lið mættust árið 2007 og þeir komu svo aftur til Íslands að spila við Val ári seinna.

„Við hefðum viljað fá betra ferðalag en þetta er niðurstaðan. Andstæðingurinn er erfiður en við ætlum okkur að komast áfram og ætlum að gera allt sem til þess tekur," sagði Heimir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×