Fótbolti

Ólafur reiknar með Eiði Smára í næsta leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Kaupmannahöfn skrifar

Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari á von á því að Eiður Smári Guðjohnsen komi aftur í íslenska landsliðshópinn fyrir næsta leik liðsins, gegn Portúgal í næsta mánuði.

„Já, ég tel allar líkur á því,“ sagði Ólafur á blaðamannafundi landsliðsins á Parken nú í kvöld. „Við söknuðum hans í leiknum gegn Noregi á föstudaginn, alveg eins og við söknuðum Hermanns Hreiðarssonar og Brynjars Björns Gunnarssonar. Þetta eru leikmenn með mikla reynslu og eru ennþá fínir fótboltamenn. Þetta eru enn landsliðsmenn.“

Ísland tapaði fyrir Noregi á föstudagskvöldið, 2-1, í undankeppni EM 2012. Ísland var yfir í hálfleik, 1-0, en missti tök á leiknum í síðari hálfleik.

„Þeir hefðu kannski barið leikmenn saman á þessum fyrsta hálftíma í síðari hálfleik. Það eru meiri líkur á því að þeir hefðu gert það en þeir ungu.“

Grétar Rafn Steinsson meiddist í þeim leik og verður ekki með gegn Dönum á Parken á morgun. „Hann er líka mikilvægur leikmaður í okkar liði.“

„En ég tel líkur á því að Eiður Smári gæti hugsanlega komið inn í hópinn fyrir næsta leik. Svo framarlega sem að hlutirnir verði eins og þeir eigi að vera. Ég hef minni trú á að Hermann verði með þá þar sem hann verður örugglega enn meiddur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×