Innlent

Meiri líkur en minni á nýjum Icesave-viðræðum

Höskuldur Kári Schram skrifar

Meiri líkur en minni eru taldar á því að Bretar og Hollendingar fallist á nýjar Icesave viðræður. Fjármálaráðherra segir að hlutirnir þokist í rétt átt og segist vera hóflega bjartsýnn.

Íslenska samninganefndin fundaði með Bretum og Hollendingum í gær og er búist við frekari fundarhöldum síðar í vikunni.

Stjórn og stjórnarandstaða fóru yfir stöðu mála á símafundi með samninganefndinni í hádeginu í dag.

Ekki liggur fyrir hvort Bretar og Hollendingar séu tilbúnir til nýrra viðræðna en fjármálaráðherra segist vera hóflega bjartsýnn.

„Ég held að þessu hafi miðað aðeins í gær já. Allavega sáu menn ástæðu til að fara ekki heim og ætla að vera í samskiptum og senda hugmyndir á milli eins og gert verður væntanlega í kvöld eða fyrramálið en það er eiginlega það eina sem hægt er að segja," sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra um málið.

Spurður hvers vegna þessi leynd væri yfir viðræðunum svaraði Steingrímur:

„Ja, þetta eru mjög viðkvæmar samningaviðræður um mikla hagsmuni og það er lögð á það rík áhersla ekki síður af gagnaðilum okkur en okkur sjálfum að það sé hægt að ræða þetta í fullum trúnaði."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×