Enski boltinn

Hodgson: Gerrard sannfærði Joe Cole um að koma á meðan HM stóð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard, Jamie Carragher, Frank Lampard og Joe Cole á æfingu með enska landsliðinu á HM.
Steven Gerrard, Jamie Carragher, Frank Lampard og Joe Cole á æfingu með enska landsliðinu á HM. Mynd/AFP
Roy Hodgson, nýi stjóri Liverpool, segir að Steven Gerrard hafi átt mikinn þátt í því að fá Joe Cole til þess að koma til liðsins. Hodgson segir að fyrirliðinn hafi sannfært Joe Cole um að koma norður til Bítlaborgarinnar á meðan þeir eyddu tíma saman á HM í Suður-Afríku.

Það þykir nokkuð ljóst á þessum fréttum að Steven Gerrard verði áfram í herbúðum Liverpool en einhverjir höfðu ýjað að því að Joe Cole myndi leysa Gerrard af í liði Liverpool þar sem Gerrard hefur verið sagður á leiðinni til Real Madrid.

„Jamie Carragher og Steven Gerrard stóðu sig vel í því að sannfæra Joe á HM í Suður-Afríku. Cole var óákveðinn og það er ljóst að það þyrfti gott tiltal til að sannfæra þennan Lundúnastrák til að flytja norður til Liverpool. Það hefði verið miklu einfaldara fyrir hann að vera áfram á Lundúnasvæðinu," sagði Roy Hodgson, stjóri Liverpool.

„Ég er mjög ánægður með að fá slíkan leikmann því það er mikilvægt fyrir okkur að bæta okkar leikmannahóp svo við náum okkar háleitum markmiðum," sagði Roy Hodgson og bætti við: „Við erum einnig ánægð með frábær og jákvæð viðbrögð stuðningsmanna við þessum fréttum. Nú er það undir Joe komið að sanna sig inn á vellinum," sagði Hodgson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×