Enski boltinn

Liverpool ræðir við Deschamps

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Forráðamenn Liverpool fara um víðan völl þessa dagana í leit að nýjum knattspyrnustjóra. Nú berast fréttir af því að félagið hafi sett sig í samband við Marseille með það fyrir augum að fá að ræða við þjálfara félagsins, Didier Deschamps.

Marseille leyfði Liverpool að ræða við hinn 41 árs gamla þjálfara sem gerði Marseille að meisturum í fyrsta skipti í 18 ár. Forseti Marseille segir þó engar líkur vera á því að hann yfirgefi Marseille.

"Þetta er satt. Christian Purslow hjá Liverpool hringdi í mig á fimmtudag. Hann talar góða frönsku og var afar kurteis. Ég átti von á þessu símtali. Ég gaf honum leyfi til þess að ræða við Didier enda banna ég aldrei fólki að eiga samskipti. Ég tók það samt fram að það væri ekki fræðilegur möguleiki á því að við myndum sleppa honum," sagði forsetinn.

Samningur Deschamps við Marseille rennur út eftir næsta tímabil og hann hefur ekki fengist til þess að framlengja við félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×