Innlent

Alþingi fótum treður stjórnarskrána

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Brynjar Níelsson segir að það sé hættuleg þróun að ætla að stjórna samfélaginu með boðum og bönnum. Mynd/ GVA.
Brynjar Níelsson segir að það sé hættuleg þróun að ætla að stjórna samfélaginu með boðum og bönnum. Mynd/ GVA.
Stjórnarskráin er fótum troðin af Alþingi, segir Brynjar Níelsson hæstaréttarlögmaður vegna nýlegra laga sem samþykkt hafa verið og frumvarpa sem þingmenn hafa boðað.

„Auðvitað er þetta allt saman brot á þessu öllu saman," segir Brynjar. Hann vísar þar til laga um bann á nektardansi, frumvarp sem takmarkar aðgang ungmenna að ljósabekkjum og frumvarp um að bannað verði að auglýsa óáfenga drykki sem bera sömu heiti og áfengir drykkir.

Brynjar bendir á að það séu engir almannahagsmunir sem krefjist banns eins og þessa. „Þetta eru bara skoðanir fólks," segir Brynjar. Hann vilji ekki gera lítið úr þessum skoðunum heldur verði menn að hugsa sig tvisvar um áður en rætt er um að beita boðum og bönnum til að framfylgja skoðunum sínum. Passi menn ekki upp á þetta séu ákvæði stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi og atvinnufrelsi handónýt ákvæði. „Því þá eru menn farnir að teygja almannahagsmuni út og suður bara út frá því hvað þeim finnst," segir Brynjar.

Brynjar spyr hvort menn eigi að hætta að taka siðferðilega ábyrgð á gerðum sínum og þess í stað eigi að setja reglur um allt. „Þetta líst mér ekki vel á og þetta endar með ósköpum. Þetta endar ekki með banni á strippi, vændi, ljósabekkjum eða auglýsingum. Þetta er rétt að byrja," segir Brynjar. Hann segir að þetta sé stórhættuleg þróun sem hann sé skíthræddur við.

Brynjar gagnrýnir að þetta sé það eina sem ríkisstjórnin hafi haft fram að færa undanfarin misseri. „Og meira að segja þessi ruglaði flokkur Sjálfstæðisflokkurinn, eins og hann er núna, þeir bara láta þetta sem vind um eyru þjóta. Þeir æmta hvorki né skræmta," segir Brynjar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×