Fótbolti

Poulsen: Við verðum að vinna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Kaupmannahöfn skrifar
Christian Poulsen.
Christian Poulsen. Mynd/AFP
Christian Poulsen, leikmaður Liverpool og fyrirliði danska landsliðsins, segir að Danir verði að vinna Íslendinga á Parken í kvöld.

„Við verðum að vinna og það er allt til staðar hjá okkur til þess að byrja vel í undankeppninni," sagði Poulsen í samtali við danska fjölmiðla í dag.

„Við erum búnir að æfa vel og höfum haft heila viku til að undirbúa okkur fyrir þennan leik. Ég hlakka til að byrja á nýjum kafla með danska landsliðinu."

Þrír reyndir leikmenn danska landsliðsins hafa nú hætt að gefa kost á sér í liðið en Poulsen hefur ekki áhyggjur af því.

„Við höfum misst reynda leikmenn en mér finnst útlitið bjart því þessir strákar sem eru að koma upp eru mjög sterkir og búa yfir góðri tækni."

Danir voru í fríi á föstudaginn en þá hófst keppni í íslenska riðlinum í undankeppni EM 2012. Ísland tapaði, 2-1, fyrir Noregi og Portúgal og Kýpur gerðu 4-4 jafntefli.

„Ef við ætlum okkur að komast á EM þurfum við að eiga sterkan heimavöll. En við þurfum samt að hafa í huga að í fyrstu tveimur leikjunum var það greinilegt að allir geta tekið stig frá öllum í þessum riðli."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×