Enski boltinn

Beckham: Vonandi vinnum við HM tvisvar á þessu ári

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Boð Englands var sett saman í þykka bók sem David Beckham afhenti Sepp Blatter, forseta FIFA, í morgun.
Boð Englands var sett saman í þykka bók sem David Beckham afhenti Sepp Blatter, forseta FIFA, í morgun. Nordic Photos / AFP

David Beckham fékk það hlutverk að skila inn formlegu boði enska knattspyrnusambandsins til að fá að halda HM í knattspyrnu 2018 eða 2022.

„Vonandi tekst okkur að vinna stærstu verðlaun íþróttaheimsins tvisvar á þessu ári, með því að vinna HM bæði innan sem og utan vallar," sagði Beckham í opnu bréfi.

„Það er engu líkt að fá að spila á HM fyrir framan sína heimaþjóð og ég vona að landsliðsmenn framtíðarinnar á Englandi fái að upplifa það," skrifaði hann.

Sjálfur stefndi Beckham að því að spila á HM í sumar en hann sleit hásin í leik með AC Milan í vetur og verður frá langt fram á haustið.

Í ágúst næstkomandi mun tækninefnd á vegum Alþjóða knattspyrnusambandsins skoða boð Englands í smáatriðum og taka afstöðu til þess. Kosningin sjálf um hvar HM verður haldið árið 2018 fer svo fram þann 2. desember næstkomandi.

Talið er afar líklegt að keppnin verði þá haldin í Evrópu og má England búast við því að vera í keppni við Rússland sem og sameiginlegt boð Spánar og Portúgals annars vegar og hins vegar Hollands og Belgíu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×