Íslenski boltinn

Öruggur 2-0 sigur Íslands á Færeyjum

Elvar Geir Magnússon í Kórnum skrifar
Matthías Vilhjálmsson.
Matthías Vilhjálmsson.

Ísland vann sannfærandi 2-0 sigur á Færeyjum í vináttulandsleik í Kórnum. Matthías Vilhjálmsson, fyrirliði FH, og Kolbeinn Sigþórsson, leikmaður AZ Alkmaar, skoruðu mörkin.

Íslenska liðið byrjaði af miklum krafti og KR-ingurinn Skúli Jón Friðgeirsson fékk hörkufæri strax í byrjun en skallaði framhjá. Ísinn var síðan brotinn eftir tíu mínútur. Skeiðarinn Arnór Sveinn Aðalsteinsson átti þá fínustu fyrirgjöf á Matthías Vilhjálmsson sem náði hörkuskalla að marki og skoraði.

Eftir þetta mark fylgdi leikkafli þar sem nokkuð jafnræði var með liðunum en hvorugt liðið að skapa sér opin færi. Á 37. mínútu bætti íslenska liðið við öðru marki, þar var að verki Kolbeinn Sigþórsson sem skoraði af örstuttu færi eftir góðan undirbúning Steinþórs Freys Þorsteinssonar. Steinþór renndi knettinum á Kolbein og eftirleikurinn auðveldur.

Tveimur mínútum síðar átti Matthías hörkuskot sem Gunnar Nielsen, markvörður Færeyja sem er á mála hjá Manchester City, varði. Staðan 2-0 í hálfleik. Fyrsta færi seinni hálfleiksins fékk Arnór Sveinn, hann skeiðaði í átt að markinu og átti hörkuskot sem Gunnar varði.

Baldur Sigurðsson kom inn fyrir Matthías sem meiddist snemma í seinni hálfleik og var Baldur ekki búinn að vera lengi inná þegar hann komst nálægt því að skora en yfir fór boltinn. Annar varamaður, Óskar Örn Hauksson, fékk dauðafæri um miðjan seinni hálfleik en náði að skalla framhjá þegar í raun var auðveldara að skora.

Simun Samuelsen, fyrrum leikmaður Keflavíkur, fékk besta færi gestana eftir mikinn misskilning milli miðvarðana Jóns Guðna Fjólusonar og Vals Fannar Gíslasonar. Simun komst framhjá Fjalari Þorgeirssyni í markinu en náði ekki að nýta sér að markið var opið og skotið fór framhjá.

Annars ógnuðu Færeyingar marki Íslands ekki mikið og 2-0 sigur staðreynd. Á miðvikudagskvöld leikur Ísland svo vináttulandsleik gegn Mexíkó í Bandaríkjunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×