Innlent

Braut rúður í áfengisvímu

Þrjú eignaspjöll voru tilkynnt lögreglunni í Vestmannaeyjum í vikunni sem leið og var í öllum tilvikum um að ræða rúðubrot. Tvö af þessum rúðubrotum eru talin upplýst en talið er að um sama aðila sé að ræða en hann var handtekinn á sunnudagskvöldið grunaður um að hafa brotið rúðu í Vosbúð. Þá er talið að hann hafi brotið rúðu að Vesturvegi 17b fyrr um daginn en í ljós kom að nokkrir ungir menn höfðu farið inn í húsið í heimildarleysi, en húsið mun vera óíbúðarhæft. Hinn handtekni fékk að gista fangageymslu lögreglu þar til víman rann af honum, en hann reyndist undir áhrifum áfengis þegar lögreglan hafði afskipti af honum og var að trufla umferð á Heiðarvegi.

Í einu tilviki er ekki vitað um geranda en um að ræða rúðubrot í útidyrahurð að Foldahrauni 41 þann 10. september.

Í ýmsu var að snúast hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum í vikunni sem leið en hins vegar ekki nein alvarleg mál sem komu upp. Frekar rólegt var í kringum skemmtistaði bæjarins og á þeim stöðum þar sem fólk kom saman. Eitthvað var um ágreining á milli aðila án teljandi vandræða.

Eitt fíkniefnamál kom upp í vikunni sem leið en lögreglan hafði afskipti af aðila sem grunaður var um að vera með fíkniefni í fórum sínum. Við leit á heimili hans framvísaði hinn grunaði smáræði af kannabisefnum. Málið telst að mestu upplýst.

Í vikunni var lögreglu tilkynnt um slys um borð í Ísleifi VE, en þarna hafði maður sem var að vinna við hreinsun í lest hrasað með þeim afleiðingum að hann fékk skurð á höfuð. Þurfti að sauma 8 spor til að loka sárinu.

Einn ökumaður var stöðvaður vegna gruns um ölvun við akstur en hann var að koma af einum af skemmtistöðum bæjarins þegar lögreglan hafði afskipti af honum. Viðkomandi var sviptur ökuréttindum til bráðabirgða. Þá var einn ökumaður sektaður fyrir að aka án þess að hafa öryggisbeltið spennt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×