Íslenski boltinn

Gunnlaugur: Mjög svekktur að ná ekki þremur stigum

Jón Júlíus Karlsson skrifar

„Ég er mjög svekktur með að ná ekki þremur stigum úr þessum leik. Við vorum með leikinn í höndunum eftir að við komumst yfir og vorum einum leikmanni fleiri. Það er ljóst að mínir menn náðu ekki að notfæra sér liðsmuninn nógu vel,“ sagði Gunnlaugur Jónsson, þjálfari Vals, eftir 1-1 jafntefli við ÍBV á Vodafone-vellinum í kvöld.

Valsmenn byrjuðu leikinn vel og margir héldu að sigurinn yrði auðveldur eftir að þeir náðu forystunni með marki Atla Sveins Þórarinssonar og Eyjamenn misstu mann útaf með rautt spjald. Það varð ekki raunin því Eyjamenn tvíefldust við mótlætið en Valsmenn dvínuðu í sínum aðgerðum.

„Við byrjuðum mjög vel en héldum ekki sama dampi og í leiknum gegn FH. Við sköpuðum fullt af færum í upphafi leiks en eftir að þeir misstu mann af velli, þá var eins og að þeir tvíefldust og við náðum ekki að brjóta varnarmúrinn niður.“

Valsmenn mæta Breiðablik á heimavelli í næsta leik og Gunnlaugur viðurkennir að það verði erfiður leikur.

„Það er hver einasti leikur mjög erfiður í þessari deild og byrjunin á þessu móti sýnir að ef þú kemur ekki tilbúinn til leiks, þá er þér refsað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×