Innlent

Bakteríur ónæmar fyrir sótthreinsiefni

 Þol sem bakteríur geta myndað gegn sótthreinsandi efnum veldur líka í þeim genabreytingu sem eflir varnir þeirra gegn cíprófoxacíni, en það er  algengt breiðvirkt sýklalyf, samkvæmt nýrri rannsókn sem unnin var á Írlandi. 
Fréttablaðið/Pjetur
Þol sem bakteríur geta myndað gegn sótthreinsandi efnum veldur líka í þeim genabreytingu sem eflir varnir þeirra gegn cíprófoxacíni, en það er algengt breiðvirkt sýklalyf, samkvæmt nýrri rannsókn sem unnin var á Írlandi. Fréttablaðið/Pjetur

Örverur geta orðið ónæmar fyrir sótthreinsandi efnum sem áttu að drepa þær, samkvæmt nýjustu rannsóknum. Þá hafa breyttu bakteríurnar meira þol við algengu breiðvirku sýklalyfi.

Í umfjöllun breska dagblaðsins Telegraph er greint frá niðurstöðum rannsóknarteymis við Háskóla Írlands í Galway. Það komst að því að bakteríur sem komast í tæri við sótthreinsandi efni í smáskömmtum laga sig að aðstæðum og gefa frá sér örverueyðandi efni sem hamlaði virkni bæði sótthreinsiefna og sýklalyfja.

„Inni á spítölum gæti þetta í raun þýtt að lítið magn sótthreinsiefna úr skúringalegi sem eftir verður á gólfi kynni að ýta undir dreifingu alvarlegra sýkinga,“ hefur Telegraph eftir dr. Gerard Fleming, sem fór fyrir rannsókninni á Írlandi.

„Og enn frekari áhyggjum veldur að bakteríur virðast geta þróast í þá átt að mynda þol gegn sýklalyfjum án þess að hafa komist í tæri við slík lyf,“ bætir hann við.

Í rannsókninni kom fram að þegar mjög litlum skömmtum sótthreinsiefna var bætt í bakteríuræktun voru bakteríurnar sem löguðu sig að efninu líklegri til að þola bæði sýklalyf og hreinsiefni, en aðrar bakteríur.

Breyttu bakteríurnar báru einnig í sér genabreytingu sem gerði þeim sérstaklega kleift að standast breiðvirk sýklalyf af cíprófloxacín-gerð.

Könnuð var P. aeruginosa bakterían, en hún finnst víða og veldur margvíslegum sýkingum í fólk sem af einhverjum sökum er með veikt ónæmiskerfi og í þeim sem veikir eru af slímseigjusjúkdómi og sykursýki. Bakterían er jafnframt sögð þekktur skaðvaldur á sjúkrahúsum.

Haraldur Briem sóttvarnalæknir segir þekkt að bakteríur geti til dæmis lifað í sápu og þekkir til umræðu um þol sem þær geti myndað gegn sótthreinsiefnum.

„En þær eru nú allar næmar fyrir spritti enn þá,“ segir Haraldur og bætir við að mestu skipti líka reglubundin skolun með vatni. „Þannig hjálpar til dæmis handþvottur með sápu því þótt bakteríurnar lifi þá gerir sápan það að verkum að þær missa festu og hreinsast af.“

olikr@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×