Innlent

Skólastarf óbreytt enn um sinn

Meirihlutinn í Borgarbyggð sprakk vegna ósættis um hvort leggja ætti niður einstaka skóla eða spara með öðrum hætti. Fréttablaðið/Pjetur
Meirihlutinn í Borgarbyggð sprakk vegna ósættis um hvort leggja ætti niður einstaka skóla eða spara með öðrum hætti. Fréttablaðið/Pjetur

Skólastarf heldur áfram óbreytt í grunnskóla Borgarfjarðar að Kleppjárnsreykjum enda hafi ekki verið tekin ákvörðun um annað, að sögn Páls S. Brynjarssonar, sveitarstjóra í Borgarbyggð.

„Staðan er í raun og veru sú að sveitarstjórn var ekki búin að samþykkja neina tillögu í skólamálum. Og það er ljóst að fyrir sveitarstjórnarfund [30. desember] ákváðu oddvitar flokkanna og sveitarstjórn að slíta samstarfinu sem var hér,“ segir Páll. Samstarfslitin komu í kjölfar ósamkomulags um hagræðingu í skólamálum. Í kjölfarið var haldinn fjölmennur íbúafundur í Logalandi þar sem mótmælt var hugmyndum um að leggja niður skólastarf á Kleppjárnsreykjum.

„Frá þeim fundi fá menn mjög skýra yfirlýsingu,“ segir Páll, en áréttar um leið að ákvörðun um hagræðingu í skólastarfi bíði nýs meirihluta sveitarfélagsins. „Hvort mönnum tekst að endurvekja þjóðstjórn, eða hvort það verður með öðrum hætti skýrist væntanlega á allra næstu dögum.“

Þjóðstjórnin var samstarf allra flokka og hafði staðið í nokkra mánuði. Áður höfðu Sjálfstæðisflokkur og Borgarlisti um árabil myndað meirihluta.

Páll segir að ljóst hafi verið að hagræða þyrfti í skólastarfi og að í þeim efnum séu allar leiðir umdeildar. - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×