Innlent

Vill uppbyggðan veg í Lakagíga

Perlur Vatnajökulsþjóðgarðs eiga ekki bara að vera fyrir ríka jeppakarla. Byggja verður upp hálendisvegi svo þjóðgarðurinn verði aðgengilegur öllum, líka fólki í hjólastólum. Þetta segir hótelstjóri í Vestur-Skaftafellssýslu.

Kverkfjöll eru nú orðin hluti Vatnajökulsþjóðgarðs. Það er hins vegar ekki mælt með því að ferðamenn reyni að komast þangað á venjulegum fólksbílum, og raunar þarf stóra jeppa eða rútur til að komast á nokkra af þekktustu stöðum þjóðgarðsins. Það á til dæmis við um Lakagíga en þangað liggur torfarinn slóði, aðeins fær stærri bílum fáar vikur á sumri. Ef lengja á ferðamannatímann verður hins vegar að byggja upp vegi á ferðamannastaði.

Eva Björk Harðardóttir, hótelstjóri Hótels Laka á Efri-Vík í Landbroti, segir að nú verði að snúa vörn í sókn og laga aðgengi að þessum stöðum. Þeir megi ekki vera bara perlur fyrir ríka jeppakarla og fáa útvalda. Hún segist tvímælalaust vilja fá uppbyggðan malbikaðan veg upp í Lakagíga. Það verði að vera aðgengi fyrir alla, líka fyrir fólk í hjólastólum. Þjóðgarður þýðir aðgengi fyrir alla og það verði að gerast sem fyrst, segir Eva Björk.

Hún telur það misskilning að í því felist vernd fyrir hálendisvinjar að torvelda fólki að komast þangað. Fólk komi til með að reyna að sjá þessa staði. Það verði utanvegaakstur, fólk fari þangað með einhverjum ráðum og þannig eyðileggist landið. Þá sé betra að stjórna umferðinni og stýra henni til þess að vernda landið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×