Innlent

Eykt vill ekki Höfðatorg við Katrínartún

Höfða- eða Katrínartún Höfðatorg stendur nú við Höfðatún en gæti staðið við Katrínartún innan skamms. Júlíus Vífill, formaður skipulagsráðs Reykjavíkur, segir koma til greina að skipta götunni.fréttablaðið/gva
Höfða- eða Katrínartún Höfðatorg stendur nú við Höfðatún en gæti staðið við Katrínartún innan skamms. Júlíus Vífill, formaður skipulagsráðs Reykjavíkur, segir koma til greina að skipta götunni.fréttablaðið/gva
„Ég hefði kosið að nafn Höfðatúns yrði óbreytt,“ segir Pétur Guðmundsson, stjórnarformaður Höfðatorgs. Skipulagsráð Reykjavíkur hefur samþykkt að breyta götunöfnum í túnahverfi. Þannig verður Skúlagötu fyrir ofan Snorrabraut breytt í Bríetartún, Sætúni í Guðrúnartún, Skúlatúni í Þórunnartún og síðast en ekki síst, Höfðatúni í Katrínartún. Er þetta gert til að minnast þess að fyrir 101 ári voru fyrstu konurnar kjörnar í bæjarstjórn í Reykjavík. Risabyggingarkjarninn Höfðatorg rís nú við Höfðatún, en mun standa við Katrínartún samþykki borgarráð breytingarnar óbreyttar. Pétur Guðmundsson hefur átt fund með Júlíusi Vífli Ingvarssyni, formanni skipulagsráðs, þar sem hann óskaði eftir að nafnið Höfðatún héldi sér. „Við teljum okkar hagsmunum betur farið með því götuheiti,“ segir Pétur. Júlíus Vífill segist hafa átt vinsamlegan fund með Pétri þar sem kom fram að Eykt, rekstraraðili Höfðatorgs, hefði frekar kosið Höfðatún en ekki Katrínartún. „Við höfum farið yfir þetta mál vegna þess að hann óskaði sérstaklega eftir því,“ segir Júlíus. „Það er ekki útilokað að Katrínartúni yrði skipt upp í tvennt og yrði frá Borgartúni og niður að Sætúni áfram Höfðatún. Það hefur ekki nein ákvörðun verið tekin um það. Það er einn af möguleikunum sem koma til greina.“ - afb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×