Innlent

Manndráp: Hinn grunaði í gæsluvarðhald

Maðurinn sem Lögreglan á Suðurnesjum handtók í gær vegna rannsóknar á ætluðu manndrápi í Reykjanesbæ var úrskurðaður í gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjaness klukkan 10 í morgun. Hann mun því sitja í gæsluvarðhaldi til mánudagsins 17. maí hið minnsta.

Lögregla segir ekki unnt á þessu stigi málsins að veita frekari upplýsingar um lögreglurannsóknina. Enn á eftir að yfirheyra sakborning og vitni frekar vegna málsins og því er ekki unnt að greina frekar frá atvikum.

Mishermt var í fréttatilkynningu lögreglunnar í gær að hinn handtekni væri liðlega tvítugur að aldri. Hið rétta er að hann er liðlega þrítugur. Hinn látni er á sextugsaldri eins og fram hefur komið.

Þeir sem telja sig geta veitt lögreglu einhverjar upplýsingar um málið eru vinsamlegast beðnir að hafa samband við Lögregluna á Suðurnesjum í síma 420 1700 eða á netfangið dc@dc.is






Tengdar fréttir

Manndráp í Keflavík: Liðlega tvítugur maður í haldi

Lögreglan á Suðurnesjum hefur nú staðfest að maður sé í haldi, grunaður um að hafa orðið öðrum manni að bana í bænum. Hinn handtekni er liðlega tvítugur og verður hann yfirheyrður síðar í dag. Ekki er unnt að greina frá nafni hins látna að svo stöddu en borin hafa verið kennsl á hann. Hann var á sextugsaldri.

Keflavík: Maður fannst látinn

Lögreglan í Reykjanesbæ rannsakar nú lát manns sem fannst undir berum himni um klukkan sex í morgun. Að sögn rannsóknarlögreglumanns hjá embættinu er talið að andlát mannsins hafi ekki borið að með eðlilegum hætti og er rannsókn á frumstigi.

Mannslát: Lögreglan staðfestir ekki handtöku

Lögreglan verst enn allra frétta af rannsókn á mannsláti í Keflavík í morgun. Vefmiðillinn Víkurfréttir segist hafa heimildir fyrir því að einstaklingur hafi verið handtekinn í tengslum við málið en í samtali við fréttastofu vildi Jóhannes Jensson yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar á Suðurnesjum hvorki játa því né neita. Von er á yfirlýsingu frá lögreglunni um málið síðar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×