Enski boltinn

Kenny Dalglish spáir því að Fernando Torres verði áfram hjá Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fernando Torres.
Fernando Torres. Mynd/Getty Images
Kenny Dalglish, fyrrum stjóri Liverpool, er vongóður um það að Fernando Torres verði áfram í herbúðum félagsins en mikið hefur verið skrifað um hugsanlega brottför Torres og áhuga Chelsea á honum.

Það hefur hinsvegar verið mikið um jákvæðar af Liverpool-liðinu síðustu daga, fyrirliðinn Steven Gerrard ætlar að vera áfram og Joe Cole er kominn til liðsins frá Chelsea. Dalglish er viss um að Roy Hodgson geti sannfært Torres um að vera áfram á Anfield.

„Þegar Torres sér að þessir leikmenn verða með honum og talar síðan við Roy þá er ég viss um að hann segir okkur góðar fréttir," sagði Kenny Dalglish.

Hodgson sagði í viðtali við News of the World í morgun að hann trúði því að hann hafi gert allt sem í hans valdi stendur til að sannfæra Torres um að spila áfram með Liverpool.

Torres meiddist aftur í úrslitaleiknum á HM en ætti að geta náð fyrsta leik tímabilsins á móti Arsenal 15. ágúst.

„Ég vona að Torres verði áfram en aðeins Fernando sjálfur veit hvað hann ætlar að gera. Því miður er hann meiddur núna en hann er frábær leikmaður og er að mínu viti mjög ánægður með félagið og borgina," sagði Kenny Dalglish og bætti við:

„Það mun hjálpa mikið til að Stevie verður áfram og þá eru komnir til liðsins sterkir leikmenn eins og Joe Cole, Milan Jovanovic, Jonjo Shelvey og Danny Wilson sem hjálpa liðinu bæði í ár og í framtíðinni," sagði Dalglish.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×