Enski boltinn

Sex vikur í að Rio Ferdinand snúi aftur eftir meiðslin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rio Ferdinand.
Rio Ferdinand. Mynd/AFP
Rio Ferdinand verður frá fram í september samkvæmt mati Sir Alex Ferguson, stjóra Manchester United en Ferdinand meiddist á hné rétt fyrir HM í Suður-Afríku og missti af heimsmeistaramótinu.

Ferdinand er orðinn 31 árs og var að glíma við bakmeiðsli allt síðasta tímabil. Hann var þó orðinn nokkuð góður af þeim þegar hann meiddi sig á liðböndum í hné á æfingu enska liðsins 4. júní.

Í fyrstu voru menn í herbúðum Manchester United að vona að hann myndi ná fyrsta deildarleik tímabilsins á móti Newcastle 16. ágúst. Eftir endurmat á stöðunni er hinsvegar ljóst að hann mun líka missa af leikjum á móti Fulham (22. ágúst) og West Ham (28. ágúst).

Ferdinand mun því líka áfram halda að missa af leikjum með enska landsliðinu. Hann verður ekki með í vináttulandsleik á móti Ungverjum 11. águst og er tæpur fyrir fyrstu leiki enska liðsins í undankeppni EM en England mætir Búlgaríu og Sviss í september.

Góðu fréttirnar frá United eru þær að Gary Neville og Antonio Valencia eru farnir að æfa aftur en Michael Owen er aftur á móti ekki enn farinn af stað og Anderson snýr ekki aftur fyrr en í lok september eftir að hafa slitið krossbönd í febrúar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×