Innlent

Ekki aðeins útvaldir fái afslátt

Pétur Ágústsson Vestfirðingar fengu sérstakan afslátt í Breiðafjarðarferjuna Baldur en nú telja Sæferðir sér ekki lengur stætt á að mismuna fólki á þann máta.
Pétur Ágústsson Vestfirðingar fengu sérstakan afslátt í Breiðafjarðarferjuna Baldur en nú telja Sæferðir sér ekki lengur stætt á að mismuna fólki á þann máta.

„Lögfræðingur okkar segir að þetta hafi verið á gráu svæði svo við ætlum að breyta afsláttarfyrirkomulaginu," segir Pétur Ágústsson, framkvæmdastjóri Sæferða, sem rekur Breiðafjarðarferjuna Baldur.

Fram til þessa hafa Vestfirðingar notið sérkjara í fargjöldum og fengið allt að 50 prósent afslátt. Pétur segir að athugasemdir hafi verið gerðar við það af fólki sem taldi sér mismunað með þessu. Niðurstaðan hafi verið sú að breyta fyrirkomulaginu.

„Þetta verður framvegis með svipuðu sniði og í Hvalfjarðargöngunum. Hægt verður að kaupa kort fyrirfram og fæst mismikill afsláttur eftir því hversu margar ferðir eru keyptar. Þannig fá þeir mestan afslátt sem eru í mestum viðskiptum og allir sitja við sama borð," útskýrir Pétur sem kveður afsláttinn framvegis geta orðið á bilinu 25 til 45 prósent.

Vegna sparnaðar hjá Vegagerðinni, sem styrkir vetraráætlun Baldurs, siglir ferjan nú aðeins sex daga vikunnar en ekki á hverjum degi. Pétur segir að eftir könnun meðal notenda ferjunnar hafi verið ákveðið að fella laugardagana út. „Þetta er alls ekki heppilegt, til dæmis gagnvart jarðarförum sem oft eru á laugardögum. En atvinnulífsins vegna var ekki hægt að fella út virkan dag svo þetta varð lendingin." - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×